Þristurinn hans Ragga lagði grunninn að sigri Hamars

Ragnar Nathanaelsson skoraði 23 stig og tók 18 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann öruggan sigur á Ármanni í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en Selfoss og Hrunamenn töpuðu sínum leikjum.

Það var mikið skorað í leik Hamars og Ármanns en ein karfa stóð þó uppúr. Ragnar Ágúst Nathanaelsson hafði farið mikinn á samfélagsmiðlum í aðdraganda leiksins og lofaði aðdáendum sínum sinni fyrstu þriggja stiga körfu á ferlinum. Stóra stundin rann upp eftir 22 sekúndur þegar Ragnar skoraði glæsilega körfu fyrir utan teig og kom Hamri í 3-0. Þessi magnaða karfa lagði grunninn að sigri Hamars, sem leiddi í hálfleik 57-54, og Hvergerðingar litu ekki í baksýnisspegilinn í seinni hálfleik heldur lönduðu 124-109 sigri. Jose Medina átti stjörnuleik með 37 stig og 10 stoðsendingar en Ragnar Ágúst vann hug og hjörtu áhorfenda með 18 stig og 14 fráköst.

Selfyssingar lentu í kröppum dansi gegn Skallagrím á heimavelli. Leikurinn var sveiflukenndur og lokakaflinn æsispennandi. Gestirnir úr Borgarnesi byrjuðu betur og náðu tíu stiga forskoti en Selfoss átti 2. leikhlutann og leiddi 43-42 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var æsispennandi, Selfoss hafði frumkvæðið lengst af og voru heimamenn komnir með tólf stiga forystu þegar sex mínútur voru eftir. Þá fór allt í skrúfuna, Skallagrímur gerði 14-2 áhlaup og jafnaði 82-82 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Liðin skiptust á körfum eftir það en gestirnir tryggðu sér 88-90 sigur af vítalínunni þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum. Þunnskipaður leikmannahópur Selfoss skilaði ágætu framlagi í heildina en Arnaldur Grímsson stóð uppúr með 21 stig og 10 fráköst.

Góður endasprettur skilaði engu fyrir Hrunamenn sem heimsóttu Sindra á Hornafjörð. Leikurinn var jafn framan af en undir lok fyrri hálfleiks tóku Sindramenn af skarið og leiddu 56-44 í hálfleik. Forskot þeirra jókst enn frekar í 3. leikhluta og þegar sá fjórði hófst var staðan 81-55. Hrunamenn söxuðu vel á forskotið í 4. leikhluta en munurinn var orðinn of mikill til þess að bilið yrði að fullu brúað. Ahmad Gilbert var besti maður vallarins með 30 stig og 17 fráköst fyrir Hrunamenn.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 28 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Álftaness. Selfoss er í 4. sæti með 16 stig og Hrunamenn í 6. sæti með 14 stig.

Hamar-Ármann 124-109 (31-25, 26-29, 39-32, 28-23)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 37/10 stoðsendingar/5 stolnir, Mirza Sarajlija 21/8 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 18/14 fráköst/3 varin skot, Björn Ásgeir Ásgeirsson 18, Alfonso Birgir Gomez 9/4 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 9/8 fráköst, Daði Berg Grétarsson 8, Haukur Davíðsson 2, Brendan Paul Howard 2.

Selfoss-Skallagrímur 88-90 (13-23, 30-19, 25-20, 20-28)
Tölfræði Selfoss: Arnaldur Grímsson 21/10 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 18, Gerald Robinson 17/4 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 13/9 stoðsendingar, Ísar Freyr Jónasson 8/9 fráköst, Kennedy Clement Aigbogun 8/5 fráköst, Styrmir Jónasson 3.

Sindri-Hrunamenn 101-87 (24-25, 32-19, 25-11, 20-32)
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 30/17 fráköst/6 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 12, Friðrik Heiðar Vignisson 11, Samuel Burt 10/5 fráköst, Yngvi Freyr Óskarsson 8, Haukur Hreinsson 7, Eyþór Orri Árnason 5, Hringur Karlsson 2, Óðinn Freyr Árnason 2.

Fyrri grein„Ísinn er svo þykkur að þetta lyftist allt upp“
Næsta greinÁin ruddist langt upp á tún