Þrír uppaldir framlengja

Valdimar, Stefán og Aron við borðið en fyrir aftan standa Hjalti Þorvarðarson, úr meistaraflokksráði karla og Dean Martin, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrír leikmenn skrifuðu í dag undir nýja samninga við knattspyrnudeild Selfoss í flugeldasölunni í Tíbrá en þeir Stefán Þór Ágústsson, Valdimar Jóhannsson og Aron Einarsson framlengdu allir samninga sína um tvö ár.

Stefán er tvítugur markmaður og hefur þrátt fyrir ungan aldur verið aðalmarkvörður liðsins undanfarin þrjú tímabil. Stefán hefur vaxið mikið sem leikmaður á þessum tíma en hann hefur leikið samtals 75 meistaraflokksleiki fyrir félagið.

Valdimar er tvítugur sóknarmaður sem kann best við sig úti á kantinum. Hann hefur verið í mikilvægu hlutverki síðustu þrjú keppnistímabil fyrir Selfoss, spilað 74 meistaraflokkleiki og skorað í þeim 15 mörk.

Aron er nítján ára miðjumaður. Hann var lykilmaður í liði Selfoss í sumar, á sínu fyrsta heila keppnistímabili í meistaraflokki. Aron hefur spilað 45 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss og var valinn efnilegasti leikmaður meistaraflokks á lokahófinu í haust.

Í tilkynningu frá Selfyssingum segir að þetta sé ákaflega mikið gleðiefni þar sem þremenningarnir eru allir uppaldir hjá félaginu.

Fyrri greinBára Kristbjörg ráðin aðstoðarþjálfari
Næsta greinEva María og Hergeir íþróttafólk Umf. Selfoss 2021