Þrír Sunnlendingar í topp tíu

Ómar Ingi Magnússon, Íþróttamaður ársins 2021 og 2022. Ljósmynd: handbolti.is/Ívar

Þrír Sunnlendingar koma til greina í hinu árlega kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins 2025. Þetta eru þau Hildur Maja Guðmundsdóttir, Ómar Ingi Magnússon og Snæfríður Sól Jórunnardóttir.

Selfyssingurinn Hildur Maja varð fyrst Íslendinga til þess að vinna til verðlauna á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum, þegar hún hafnaði í öðru sæti á gólfi á móti í Úzbekistan. Að auki keppti hún til úrslita á tvíslá og hafnaði í 8. sæti. Hún varð bikarmeistari með félagsliði sínu, Gerplu, á árinu og varð hún í 2. sæti á slá á Íslandsmótinu. Hún náði bestum fjölþrautarárangri íslenskra kvenna á Evrópumótinu í Leipzig, sem og heimsmeistaramótinu í Jakarta.

Selfyssingurinn Ómar Ingi er lykilmaður hjá Magdeburg, besta félagsliði heims í handbolta um þessar mundir. Hann skoraði ellefu mörk í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og sex mörk í úrslitaleiknum. Magdeburg hefur verið nær ósigrandi á þessu tímabili og Ómar er í hópi markahæstu manna í þýsku deildinni og Meistaradeildinni.

Hvergerðingurinn Snæfríður Sól komst í úrslit í 200 metra skriðsundi á EM í 25 m laug í desember. Hún lauk keppni í sjötta sæti í úrslitum. Hún setti þrjú Íslandsmet á EM, í 200 m skriðsundi, 50 m skriðsundi og í 4×50 m skriðsundi kvenna. Hún endaði í 15. sæti í 100 m skriðsundi þar sem hún komst í undanúrslit. Þá vann Snæfríður fern gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun á Smáþjóðaleikunum á Andorra og setti þar Íslandsmet í 400 m skriðsundi.

Tíu efstu í stafrófsröð:
Dagur Kári Ólafsson, fimleikar
Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingar
Gísli Þorgeir Kristjánsson, handbolti
Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrna
Hákon Arnar Haraldsson, knattspyrna
Hildur Maja Guðmundsdóttir, fimleikar
Jón Þór Sigurðsson, skotfimi
Ómar Ingi Magnússon, handbolti
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund
Tryggvi Snær Hlinason, körfubolti

Kjörinu verður lýst laugardagskvöldið 3. janúar við hátíðlega athöfn í Hörpu en þá kemur í ljós hvern samtökin kusu íþróttamann ársins, og jafnframt hver er þjálfari ársins og hvaða lið varð fyrir valinu sem lið ársins.

Fyrri greinOddfellowfélagar veita jólastyrk í Rangárþing