Þrír Sunnlendingar á Wodapalooza

Íslendingarnir á Woda­pa­looza (F.v.) Breki Þórðarson, Tindur Eliasen, Guðbjörg Valdimarsdóttir, Björgvin Karl Guðmundsson, Bergrós Björnsdóttir og Eggert Ólafsson þjálfari Tinds og Bergrósar. sunnlenska.is/Berglind Hafsteinsdóttir

Þrír Sunnlendingar verða í eldlínunni á CrossFit mótinu Wodapalooza sem hófst í Miami í Flórída í dag. Mótið er eitt stærsta CrossFitmót sem haldið er í heiminum ár hvert og því lýkur á sunnudag.

Ísland á þrjá keppendur í meistaraflokki á mótinu og svo skemmtilega vill til að þau eru öll Sunnlendingar.

Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir keppir í einstaklingskeppni í meistaraflokki kvenna á mótinu. Bergrós verður 17 ára á þessu ári og var henni boðið að færa sig úr unglingaflokki yfir í meistaraflokkinn á mótinu en hún er ríkjandi Íslandsmeistari kvenna í CrossFit.

Hvergerðingurinn Björgvin Karl Guðmundsson frá Stokkseyri tekur þátt í liðakeppninni og það gerir Guðbjörg Valdimarsdóttir frá Hveragerði líka. Björgvin Karl er í liðinu Tres Leches ásamt þeim Patrick Vellner og Travis Mayer. Guðbjörg er í liðinu NGH ásamt þeim Nicole Crouch og Katie Brock.

Tveir aðrir Íslendingar keppa á mótinu; Breki Þórðarson keppir í flokki fatlaðra og Tindur Eliasen keppir í unglingaflokki 16-18 ára.

Fyrri greinToppliðið skellti botnliðinu
Næsta greinAð ganga er besta líkamsræktin