Þriðji sigur Selfoss í röð

Hólmfríður Magnúsdóttir lætur vaða að marki Stjörnunnar í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru áfram á toppi Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu eftir góðan 3-1 sigur á Stjörnunni á heimavelli í dag.

„Já, þetta var frá­bær sig­ur og frá­bær liðsheild hjá okk­ur og ótrú­lega gam­an að í fyrsta skipti í sögu Sel­foss þá vinn­um við þrjá fyrstu leik­ina í mót­inu. Þetta var mjög erfiður leik­ur en það voru gæðin inn­an okk­ar liðs sem skildi á milli í dag og skópu þenn­an sig­ur,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Stjarnan ógnaði talsvert í fyrri hálfleik þó að Selfyssingar hafi verið meira með boltann og fengið nóg pláss til að athafna sig. Gestirnir áttu hættulegri sóknir en á 32. mínútu kom Anna María Friðgeirsdóttir Selfyssingum yfir. Hún tók stutta hornspyrnu og fékk boltann aftur frá Unni Dóru Bergsdóttur. Anna María flengdi boltanum inn í teig og yfir Chanté Sandiford í marki Stjörnunnar, 1-0.

Staðan var 1-0 í hálfleik en Stjarnan jafnaði metin á 52. mínútu eftir snarpa sókn þegar Selfyssingar misstu boltann á miðjunni. Í stöðunni 1-1 gat allt gerst en þriðja mark leiksins gerði út um leikinn. Það skoraði Unnur Dóra Bergsdóttir með frábærum skalla eftir lystilega fyrirgjöf Brennu Lovera. Þremur mínútum síðar rak svo Hólmfríður Magnúsdóttir síðasta naglann í kistuna hjá Stjörnunni með góðu skoti, 3-1.

Það má segja að það hafi fjarað snögglega undan leiknum eftir þetta. Bæði lið hefðu þó getað bætt við mörkum en niðurstaðan var sanngjarn sigur Selfoss.

Selfoss er í efsta sæti deildarinnar með 9 stig og mætir næst Þrótti á útivelli á miðvikudagskvöld.

Fyrri greinDabetic jafnaði fyrir Ægi
Næsta greinSköpunargleðin við völd í Skjálftanum