Selfyssingar töpuðu þriðja leiknum í röð í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir heimsóttu ÍR í Breiðholtið.
Selfossliðið hefur verið í meiðslavandræðum og þau jukust enn strax á tíundu mínútu þegar framherjinn Raúl Tanque fór meiddur af velli. Selfoss komst í ágætar stöður snemma leiks en annars var fyrri hálfleikurinn tíðindalítill og staðan var 0-0 í hálfleik.
Föstu leikatriðin eru sterkasta hlið ÍR-inga og þeir refsuðu Selfyssingum með skallamarki eftir hornspyrnu á 58. mínútu. Sjö mínútum síðar tvöfölduðu heimamenn svo forystuna og róðurinn orðinn þungur fyrir Selfoss.
Þeir vínrauðu lögðu ekki árar í bát en varð ekki ágengt upp við mark ÍR-inga á lokakaflanum.
Selfyssingar eru í 9. sæti deildarinnar með 3 stig en ÍR lyfti sér upp í 2. sætið og er með 8 stig.