Þriðja tap Selfoss í röð

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Gróttu í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Heimamenn höfðu betur, 1-0, og var þetta þriðja tap Selfyssinga í röð í deildinni.

Grótta var ívið sterkari í fyrri hálfleik en heimamenn léku með rokið á Seltjarnarnesinu í bakið. Selfyssingar áttu samt fínar sóknir og sköpuðu sér tvö dauðafæri. Það var heldur súrt fyrir Selfyssinga að fá klaufalegt sjálfsmark í andlitið á 34. mínútu. Grótta fékk aukaspyrnu fyrir utan teig og eftir skalla í teignum hrökk boltinn af Stefáni Þór Ágústssyni, markverði Selfoss, í Adrian Sanchez og þaðan í netið.

Vindáttin var sú sama í seinni hálfleik þannig að leikurinn snerist Selfyssingum nokkuð í vil. Þeir náðu þó ekki að skapa mörg færi. Útlitið versnaði nokkuð á 74. mínútu þegar Þór Llorens Þórðarson fékk sitt annað gula spjald og manni færri tókst Selfyssingum ekki að skapa neina hættu upp við mark Gróttu.

Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar með 10 stig og mætir næst en Grótta lyfti sér upp í 5. sætið með 13 stig.

Fyrri greinSkálholtsbókhlaða endurreist
Næsta greinOR skoðar vindorkugarða í nágrenni Hellisheiðar