Þriðja tap Selfoss í Lengjunni

Gary Martin, leikmaður Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur karl

Selfyssingar töpuðu 4-0 þegar þeir heimsóttu Fylki í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld.

Fylkismenn komust yfir strax á upphafsmínútunum eftir slæm mistök í öftustu línu Selfyssinga. Fyrri hálfleikurinn var nokkuð opinn og Selfoss átti ágætar sóknir inn á milli. Um miðjan fyrri hálfleikinn fiskaði Gonzalo Zamorano vítaspyrnu, Gary Martin fór á punktinn en markvörður Fylkis fór í rétt horn og varði auðveldlega frá honum.

Skömmu síðar komust Fylkismenn í 2-0 eftir aukaspyrnu og klafs í teignum og þriðja markið kom svo undir lok fyrri hálfleiks, 3-0 í leikhléi.

Ekki þurftu menn að bíða lengi eftir fjórða marki Fylkis, það kom uppúr hornspyrnu á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Annars var seinni hálfleikurinn heldur tíðindalítill og lokatölur urðu 4-0.

Selfoss er í neðsta sæti síns riðils í A-deildinni, án stiga. Næsti leikur liðsins er stórleikur gegn Grindavík, lærisveinum Alfreðs Elíasar Jóhannssonar, en Grindvíkingar eru sömuleiðis stigalausir.

Fyrri greinForsetinn sendi Hvergerðingum kveðju
Næsta greinLíklegt að vegum verði lokað í fyrramálið