Þrettán sunnlensk mörk í þremur sigurleikjum

Andrés Karl Guðjónsson, markaskorari Árborgar, með boltann í leiknum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var stór dagur í Lengjubikarnum í dag þegar sunnlensku neðrideildarliðin mættu til leiks í C-deildinni. KFR, Árborg og Stokkseyri unnu öll sína leiki.

KFR heimsótti Létti á ÍR-völlinn. Tvíburarnir Bjarni og Rúnar Þorvaldssyni tryggðu KFR sigurinn með sitthvoru markinu í fyrri hálfleik. Staðan var 0-2 í leikhléi en Léttismenn minnkuðu muninn þegar rúmur hálftími var eftir og þar við sat, 1-2.

Árborgarar voru heldur ekki lengi að afgreiða KM á gervigrasinu á Selfossi í dag. Aron Freyr Margeirsson og Andrés Karl Guðjónsson komu Árborg í 2-0 á fyrstu sjö mínútunum. Ingi Rafn Ingibergsson kom Árborg í 3-0 á 18. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Andrés Karl bætti við öðru marki sínu í upphafi seinni hálfleiks og Þorsteinn Daníel Þorsteinsson tryggði Árborg 5-0 sigur með marki á lokakaflanum.

Í síðasta leik dagsins tóku Stokkseyringar á móti Álafossi á gervigrasinu á Selfossi. Stokkseyringar unnu öruggan 6-0 sigur þar sem markaskorunin dreifðist vel. Steinar Benóný Gunnbjörnsson, Þorkell Þráinsson, Pétur Smári Sigurðsson, Arilíus Óskarsson, Jón Jökull Þráinsson og Gunnar Flosi Grétarsson skoruðu mörk Stokkseyringa í dag.

Í gærkvöldi mætti Ægir ÍR í B-deildinni á útivelli. ÍR-ingar afgreiddu leikinn í fyrri hálfleik með fimm mörkum á rúmlega tuttugu mínútna kafla. Bjarki Rúnar Jónínuson minnkaði muninn í 5-1 snemma í seinni hálfleik en ÍR átti seinasta orðið þegar þeir skoruðu sjötta markið sitt um miðjan seinni hálfleikinn. Lokatölur 6-1 og Ægir er enn án stiga í riðlinum.

Fyrri greinFSu flaug inn í undanúrslitin
Næsta greinSætur sigur á Akureyri