
Þrettán HSK met og eitt brautarmet var sett í Bláskógaskokkinu sem haldið var sunnudaginn 15. júní síðastliðinn.
Fjóla Signý Hannesdóttir bætti HSK metið í kvennaflokki í Bláskógaskokkinu í 5 mílna hlaupinu. Hún kom fyrst kvenna í mark á tímanum 41,37 mín. og bætti fimm ára gamalt met Guðnýjar Hrundar Rúnarsdóttur um 61 sek, en metið var 42,38 mín. Fjóla setti einnig HSK met í flokki 35-39 ára kvenna.
Anna Metta Óskarsdóttir Selfossi bætti eigið HSK met í 5 mílna hlaupinu í fjórum aldursflokkum frá 15 til 22 ára. Hún hljóp á 43,01 mín., en hún átti 44,27 mín frá árinu 2023.
Andri Már Óskarsson bróðir Önnu setti HSK met í sjö flokkum í 10 mílna hlaupinu. Ekki voru skráð HSK met í flokkum 12 ára til 18-19 ára þar sem enginn keppandi af HSK svæðinu, svo ungur, hefur hlaupið þessa vegalengd fyrr svo vitað sé. Andri hljóp á 1:20,38 klst. Andri bætti svo metið í flokki 20-22 ára um níu sekúndur en Magnús Bjarki Snæbjörnsson átti HSK metið í þeim flokki sem var 1:20,47 klst, sett árið 2012.

Eitt brautarmet var bætt í hlaupinu í ár. Daníel Snær Eyþórsson kom fyrstur í mark í karlaflokki í 5 mílna hlaupinu á 29,57 mín og bætti þar með brautarmet Sigurðar Ingvarssonar um eina sekúndu, en Sigurður hljóp á 29,58 mín bæði árin 2023 og 2024.
Sérverðlaun frá verslunni Fætur toga voru veitt fyrir fyrsta karl og fyrstu konu í hlaupinu í báðum vegalengdum. Einnig voru veitt nokkur útdráttarverðlaun frá Fætur toga. HSK þakkar eiganda fyrirtækisins, henni Fjólu Signýju Hannesdóttur kærlega fyrir stuðninginn og aðstoð. Einnig er Fontana á Laugarvatni þakkað fyrir stuðninginn og almenningsíþróttanefnd HSK og öðrum sjálfboðaliðum fyrir góða framkvæmd á hlaupinu.
Heildarúrslit má sjá hér.
