Þrettán ára Íslandsmeistari í U17 ára flokki

Bergrós með eina af lyftum sínum á mótinu. Ljósmynd/Jens Andri

Hin þrettán ára gamla Bergrós Björnsdóttir, Umf. Selfoss, gerði sér lítið fyrir og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í ólympískum lyftingum í flokki 17 ára og yngri á Íslandsmeistaramóti unglinga sem fram fór í Kópavogi í lok júlí.

Bergrós, sem var lang yngsti keppandi mótsins, tók 60 kg í snörun og 71 kg í jafnhendingu og náði því 171,4 Sinclairstigum. Hún setti um leið fjögur Íslandsmet en 60 kg í snörun og samanlagður árangur í snörun og jafnhendingu, 131 kg, er Íslandsmet í flokkum U17 og U15.

Símon Gestur Ragnarsson, Umf. Selfoss, varð Íslandsmeistari í flokki U20 ára pilta Símon Gestur er 19 ára gamall og keppir í -89 kg flokki. Hann tók 119 kg í snörun sem er nýtt Íslandsmet í flokki U20 og í jafnhendingu lyfti hann 132 kg sem gaf honum samtals 292 Sinclairstig.

Í -81 kg flokki U17 ára sigraði Guðmundur Bjarni Brynjólfsson, Umf. Selfoss, en hann lyfti 62 kg í snörun og 90 kg í jafnhendingu og fékk samtals 191,1 Sinclairstig.

Samhliða mótinu fór fram Sumarmót Lyftingasambands Íslands og þar sigraði Friðný Fjóla Jónsdóttir, Hengli, í -81 kg flokki kvenna, lyfti 73 kg í snörun og 86 kg í jafnhendingu og fékk 186,9 Sinclairstig.

Heiðrún Stella Þorvaldsdóttir, Hengli, varð í 3. sæti í -64 kg flokki kvenna, hún lyfti 75 kg í snörun og 90 kg í jafnhendingu sem gefur 216,4 Sinclairstig.

Símon Gestur Ragnarsson. Ljósmynd/Jens Andri

 

Fyrri greinMótorhjólamenn sektaðir fyrir utanvegaakstur
Næsta greinSlasaðist þegar þaksperra féll á vinnupall