Þrenna Lovera tryggði Selfossi sigurinn

Þrenna Lovera. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann magnaðan 3-4 sigur á Fylki í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld, þegar liðin mættust í Árbænum.

Brenna Lovera skoraði tvívegis á fyrstu átta mínútum leiksins, í bæði skiptin eftir sendingu frá Caity Heap en þær stöllur voru frábærar í leiknum í kvöld. Selfoss slakaði full mikið á eftir annað markið og Fylkir minnkaði muninn á 16. mínútu. Heimakonur tvíefldust við markið og óðu í færum en var fyrirmunað að koma boltanum í netið. Það var því sætt fyrir Selfyssinga að Magdalena Reimus lokaði fyrri hálfleiknum með marki í uppbótartímanum, enn ein stoðsendingin frá Caity Heap.

Seinni hálfleikurinn var jafn og galopinn í báða enda. Bæði lið áttu mjög álitlegar sóknir og Fylkiskonur voru fyrri til að skora þegar þær minnkuðu muninn í 2-3 á 54. mínútu. Brenna Lovera var fljót að leiðrétta muninn aftur en hún kom Selfyssingum í 2-4 með þriðja marki sínu á 62. mínútu þegar hún fékk boltann innfyrir vörnina frá Susanna Friedrichs. Mörkin hefðu getað orðið ennþá fleiri í þessum fjöruga leik en Fylkiskonur áttu síðasta orðið þegar þær minnkuðu muninn í 3-4 á 87. mínútu.

Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar með 22 stig og mætir næst ÍBV á heimavelli á mánudagskvöld.

Fyrri greinFramarar komnir með tvo sigra
Næsta greinÖlfusárbrú lokað í kvöld