Þrenn knapaverðlaun á Suðurland og Árbæjarhjáleiga 2 keppnishestabú ársins

Glódís Rún Sigurðardóttir frá Sunnuhvoli í Ölfusi var valin efnilegasti knapi ársins 2020. Ljósmynd/Landssamband hestamannafélaga

Sunnlendingar voru atkvæðamiklir þegar Landssamband hestamannafélaga afhenti viðurkenningar fyrir knapa ársins og keppnishestabú ársins í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í dag.

Glódís Rún Sigurðardóttir frá Sunnuhvoli í Ölfusi var valin efnilegasti knapi ársins 2020. Hún hefur verið í fremstu röð í íþrótta- og gæðingakeppnum undanfarin ár og varð meðal annars samanlagður fjórgangssigurvegari á Reykjavíkurmeistaramótinu.

Hlynur Guðmundsson í Ytri-Skógum ​er gæðingaknapi ársins 2020 en hann var ötull með Trommu frá Höfn í B-flokki gæðinga í sumar. Hlynur varð annar í gæðingakeppninni á Meistaramóti Íslands og sigraði bæði félagsmót Hornfirðings og Gæðingamót Geysis þar sem Hlynur og Tromma fengu einkunnina 8,93.

Árni Björn Pálsson​ á Hrafnshóli á Rangárvöllum er kynbótaknapi ársins 2020. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem Árni Björn hlýtur þá útnefningu og fjórða skiptið alls. Hann átti frábært ár á kynbótabrautinni en hann sýndi alls 87 hross í fullnaðardómi í ár í 100 sýningum.

Að lokum var Árbæjarhjáleiga 2 valið keppnishestabú ársins 2020 og tóku þau Kristinn Guðnason og Marjoline Tiepen við verðlaununum. Mörg hross frá Árbæjarhjáleigu 2 hafa staðið sig gríðarlega vel á keppnisbrautinni á liðnu keppnistímabili. Atkvæðamestur var skeiðgarpurinn Kjarkur, tvöfaldur Reykjavíkurmeistari, í 100 m skeiði og 250 m skeiði, með besta tíma í 100 m skeiði á árinu, besta tímann í 150 m skeiði og besta tímann í 250 m skeiði. Þá voru þrjú hross frá Árbæjarhjáleigu 2 í einu af tíu efstu sætunum í fimmgangi á þýska meistaramótinu.

Það var formaður LH, Guðni Halldórsson, sem afhenti verðlaunin. Framkvæmdastjóri ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir, afhenti við sama tækifæri Jakobi Svavari Sigurðssyni, knapa ársins viðurkenningu frá ÍSÍ. Önnur verðlaun féllu í skaut Ragnhildar Haraldsdóttur íþróttaknapa ársins, Konráðs Vals Sveinssonar og skeiðknapa ársins.

Hlynur Guðmundsson í Ytri-Skógum ​er gæðingaknapi ársins 2020. Ljósmynd/Landssamband hestamannafélaga
Kristinn Guðnason og Marjoline Tiepen á Árbæjarhjáleigu 2. Ljósmynd/Landssamband hestamannafélaga
Verðlaunahafarnir í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í dag. Ljósmynd/Landssamband hestamannafélaga
Fyrri greinEyrún Huld sigraði í pólskri fiðlukeppni
Næsta greinAðalvinningurinn á miða númer 2139