Þrefalt metstökk og stórbæting hjá Evu Maríu

Eva María Baldursdóttir. Ljósmynd/UMFS

Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, stórbætti sig í hástökki á Vormóti UMSB sem fram fór í Borgarnesi í dag.

Eva María, sem er 16 ára gömul, sigraði í hástökkinu með því að stökkva 1,75 m og bæta sig um 4 sm. Hún setti í leiðinni HSK met í þremur  flokkum; 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.

Stökkið er besta afrek íslenskrar frjálsíþróttakonu það sem af er sumri og níunda besta stökk íslenskrar konu frá upphafi í hástökki. Stökkið skipar henni í 19.-23. sæti í hástökki á heimslista 17 ára og yngri sumarið 2019.

Frábær byrjun á sumrinu hjá þessari efnilegu íþróttakonu og spennandi að fylgjast með henni á næstu mótum. Þess má geta að Eva María þarf aðeins að bæta sig um 1 sm til að ná lágmarki á Bauhaus Junioren Gala sem er alþjóðlegt stórmót fyrir 16-19 ára keppendur.

Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Umf. Selfoss, keppti í kúluvarpi á sama móti  og sigraði í flokki 15 ára með því að kasta kúlunni 10,65 m og bæta sig um rúman metra. Frábær árangur hjá henni og draumabyrjun á keppnistímabilinu.

Fyrri greinNýir rekstraraðilar að Stað
Næsta greinListaverk sem ávarpar kvíða, einsemd og vonleysi