Þorvaldur stórbætti sig í Slóveníu

Daníel Breki og Þorvaldur Gauti á frjálsíþróttavellinum í Maribor. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

Selfyssingarnir Þorvaldur Gauti Hafsteinsson og Daníel Breki Elvarsson kepptu fyrir hönd Íslands á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Maribor í Slóveníu í síðustu viku.

Þorvaldur Gauti keppti í 800 m hlaupi og stórbætti hann sinn besta árangur er hann hljóp á tímanum 2:00,06 mín og lenti í 20. sæti. Þessi tími Þorvaldar er nýtt HSK met í flokki 16-17 ára. Þorvaldur átti fyrra metið sjálfur, síðan í vor, en hann bætti sig um 2,67 sekúndur í hlaupinu í Slóveníu.

Daníel Breki varð í 12. sæti í spjótkasti en hann kastaði 56,19 sem er hans ársbesti árangur.

Þrír Íslendingar tóku þátt í frjálsíþróttakeppni mótsins og í tilkynningu frá frjálsíþróttadeild Selfoss segir að deildin sé mjög stolt af því að eiga tvo af þeim þremur keppendum sem valdir voru á Ólympíuhátíðina í ár. Þjálfari Íslendinganna á mótinu var Rúnar Hjálmarsson, yfirþjálfari hjá frjálsíþróttadeild Selfoss.

Fyrri greinStuðball og sjálfskipaðir trúbadorar í Rangárþingi eystra
Næsta greinUmf. Hekla og Reykjagarður gera samstarfssamning