Þorvaldur og Hjálmar unnu brons á MÍ

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson vann bronsverðlaun í 800 m hlaupi. Ljósmynd/Aðsend

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, báðir úr Umf. Selfoss, náðu góðum árangri á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina.

Þorvaldur Gauti, sem er 17 ára, stóð sig frábærlega þegar hann vann til bronsverðlauna í 800 m hlaupi á tímanum 1:58,54 mín og fór í fyrsta sinn undir hinn langþráða 2 mínútna múr. Þessi árangur Þorvaldar Gauta er héraðsmet í flokkum 16-17 ára og 18-19 ára en hann átti sjálfur fyrri metin. Lágmarkið á Evrópumeistaramót U18 í sumar er 1:56,00 og því vel raunhæfur möguleiki að hann nái inn á mótið.

Hjálmar Vilhelm, sem er aðeins 16 ára, var hársbreidd frá því að vinna Íslandsmeistaratitilinn í hástökki er hann felldi naumlega 1,87 m. Allir þrír efstu stukku yfir 1,82 m og réði fjöldi tilrauna úrslitum. Hjálmar Vilhelm endaði því í 3.sæti og vann til bronsverðlauna. Hann bætti einnig sinn besta árangur í 200 m hlaupi er hann hljóp á 24,20 sek.

Ísold Assa Guðmundsdóttir bætti sig í hástökki er hún vippaði sér yfir 1,65 m og endaði í 4. sæti með sömu hæð og Marsibil Hafsteinsdóttir úr FH sem varð í 3. sæti. Ísold Assa vippaði sér síðan yfir 2,42 m í stangarstökki og endaði í 5. sæti.

Þær Hanna Dóra Höskuldsdóttir og Erlín Katla Hansdóttir komust upp úr undankeppninni í langstökki í úrslitin og höfnuðu þar í 11. og 12.sæti. Hanna Dóra stökk 4,80 m og Erlín Katla 4,67 m.

Mýrdælingurinn Egill Atlason Waagfjörð var eini keppandi Umf. Kötlu á mótinu og varð hann í 4. sæti í langstökki karla, stökk 6,06 m.

Hjálmar Vilhelm (t.h.) á verðlaunapalli í hástökki ásamt þeim Brynjari Páli Jóhannssyni UFA og Ægi Erni Kristjánssyni Breiðabliki, en allir stukku þeir 1,82 m. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSelfoss tryggði sér deildarmeistaratitilinn
Næsta greinAnna Metta þrefaldur Íslandsmeistari