Þorvaldur Gauti með óvænt afrek og Selfoss Classic viðburður ársins

Marta María B. Siljudóttir, Íris Berg Bryde, Jón Birgir Guðmundsson, Aðalbjörg Hafsteinsdóttir og Guðmundur Karlsson voru í undirbúningsnefnd Selfoss Classic ásamt Vésteini sem var staddur heima í Svíþjóð. Á myndina vantar einnig Helga S. Haraldsson. Ljósmynd/FRÍ

Uppkeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram í Laugardalshöllinni á dögunum en þar voru veittar viðurkenningar fyrir árið 2022 og farið yfir árið í máli og myndum.

Stærstu verðlaunin voru val á frjálsíþróttafólki ársins þar sem kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR, var valin frjálsíþróttakona ársins og sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson, FH, frjálsíþróttakarl ársins.

Sunnlendingar hlutu fjölda verðlauna. Hinn 15 ára gamli Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, vann óvæntasta afrek 19 ára og yngri en hann átti frábært keppnistímabil í sumar og náði glæsilegum tíma í 800 metra hlaupi fyrir 15 ára pilt.

Selfoss Classic, 75 ára afmælismót FRÍ sem haldið var í maí, var valinn viðburður ársins en þar kepptu íþróttamenn á heimsmælikvarða við frábærar aðstæður á Selfossi. Vésteinn Hafsteinsson mætti á mótið með lærisveina sína, Daniel Ståhl og Simon Pettersson, og voru opnar æfingar og fyrirlestrar haldnir í kringum mótið.

Dagur Fannar Einarsson frá Urriðafossi, sem keppir fyrir ÍR, var valinn fjölþrautarkarl ársins og Pétur Guðmundsson frá Tungu, einnig úr ÍR, var valinn þjálfari ársins en hann er þjálfari Ernu Sóleyjar og Guðna Vals Guðnasonar.

Þá voru sigurvegarar Laugarvegshlaupsins, þau Arnar Pétursson og Andrea Kolbeinsdóttir valin utanvegahlauparar ársins en Andrea setti brautarmet kvenna í sumar í hlaupinu á milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson náði frábærum árangri á hlaupabrautinni í sumar. Ljósmynd/FRÍ
Fyrri greinSpennandi frumkvöðlaverkefni í startholunum
Næsta greinÞremur bjargað af bílþaki í Krossá