Þorvaldur Gauti bætti 36 ára gamalt met

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson. Ljósmynd/FRÍ

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, bætti árangur sinn í 800 m hlaupi innanhúss og setti tvö HSK met á fyrsta móti Nike-mótaraðar FH í Kaplakrika í Hafnarfirði þann 12. janúar síðastliðinn.

Þorvaldur Gauti, sem er á sextánda ári, hljóp á 2:01,55 mín og bætti héraðsmetin bæði í flokki 16-17 ára og 18-19 ára.

Í 16-17 ára flokknum bætti hann met Goða Gnýs Guðjónssonar um 4,36 sekúndur og í 18-19 ára flokknum bætti hann 36 ára gamalt met Gunnlaugs Karlssonar um 0,25 sek.

Þorvaldur Gauti varð þriðji í hlaupinu í Hafnarfirði. Fjöldi keppenda af sambandssvæði HSK tók þátt í mótinu en Guðlaug Birta Davíðsdóttir, Garpi/Heklu, var sú eina sem kom heim með gullverðlaun. Hún sigraði í kúluvarpi kvenna, kastaði 8,81 m.

Fyrri greinAldamótahittarar Einars Bárðar á Sviðinu
Næsta greinFé brann inni í Ásahreppi