Þorsteinn Ragnar íþróttamaður Rangárþings eystra 2020

Þorsteinn Ragnar Guðnason. Ljósmynd/Rangárþing eystra

Þorsteinn Ragnar Guðnason, frá Guðnastöðum í Austur-Landeyjum, er íþróttamaður ársins í Rangárþingi eystra árið 2020. Verðlaunin voru afhent á 17. júní.

Þorsteinn Ragnar er í íslenska landsliðinu í taekwondo og sækir öll þau mót sem kostur er á, hvort sem er á Íslandi eða erlendis, og vinnur yfirleitt til gullverðlauna. Hann hefur einnig tekið þátt í Norðurlandamótum og heimsmeistaramóti og staðið sig þar með mikilli prýði. Þorsteinn Ragnar kynntist og byrjaði að æfa taekwondo 9 ára gamall. Hann er meðal yngstu Íslendinga sem fengið hafa svarta beltið í sinni íþrótt en þau hlaut hann 15 ára gamall. Í dag er hann bæði kominn með þjálfara og dómararéttindi. Hann er einnig metnaðarfullur námsmaður og stundar nám á íþróttabraut Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Ásamt Þorsteini voru þau Andri Már Óskarsson, golfari, Þormar Elvarsson, knattspyrnumaður og Kasia Kosecka-Skorupka, hlaupari, tilnefnd til verðlaunanna.

Fyrri greinSelfoss sigraði á aldursflokkamótinu – Tvíburarnir settu ellefu héraðsmet
Næsta greinHamarskonur með góðan sigur