Þórsarar völtuðu yfir Valsmenn

Vincent Shahid var stigahæstur Þórsara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn, sem er í harðri fallbaráttu, valtaði yfir Valsmenn, sem eru í harðri toppbaráttu, í úrvalsdeild karla í körfubolta. Liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld þar sem Þór sigraði 106-74.

Fyrsti leikhluti var í járnum en í öðrum fóru Þórsarar á kostum á báðum endum vallarins og leiddu í leikhléi 45-31. Munurinn jókst örlítið í 3. leikhluta en í þeim fjórða sýndu Þórsarar hverjir höfðu völdin, skoruðu 36 stig og sendu gestina af Hlíðarenda vængstýfða heim.

Vincent Shahid var magnaður í kvöld, skoraði 26 stig og sendi 11 stoðsendingar. Styrmir Snær Þrastarson átti sömuleiðis frábæran leik með 19 stig og 8 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Þór er í 9. sæti með 12 stig, jafnmörg stig og Höttur í 10. sætinu en Höttur á leik til góða. Valur er í 2. sæti með 24 stig.

Tölfræði Þórs: Vinnie Shahid 26 stig/11 stoðsendingar/5 fráköst, Styrmir Snær Þrastason 19 stig/8 fráköst/6 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 13 stig/8 fráköst, Pablo Hernandez 13, Emil Karel Einarsson 9, Jordan Semple 8 stig/7 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6 stig/5 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 6, Magnús Breki Þórðason 3, Styrmir Þorbjörnsson 2, Sigurður Björn Torfason 1.

Fyrri greinGul viðvörun á laugardag
Næsta greinSelfyssingar fóru stigalausir úr Skessunni