Þórsarar völtuðu yfir KR

Larry Thomas var stigahæstur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þorlákshafnar-Þórsarar léku frábæran körfubolta í kvöld þegar þeir lögðu KR að velli á útivelli, 77-107, í úrvalsdeild karla í körfubolta.

Sóknarleikur Þórsara var hraður og markviss stærstan hluta leiksins og vörnin góð, sérstaklega í fyrri hálfleik. Því voru Þórsarar komnir með gott forskot í hálfleik, 31-57.

Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta og undir lok hans var staðan orðin 41-82. KR-ingar klóruðu í bakkann í 4. leikhluta en það klór var aumt og allt of seint.

Larry Thomas var fremstur í flokki í liði Þórs í kvöld, hann skoraði 29 stig, Callum Lawson skoraði 17 stig og tók 14 fráköst og þeir Halldór Garðar Hermannsson og Styrmir Snær Þrastarson skoruðu báðir 13 stig. Allir leikmenn Þórs komust á blað í kvöld.

Þórsarar eru nú í 4. sæti deildarinnar með 8 stig.

Tölfræði Þórs: Larry Thomas 29/4 fráköst, Callum Lawson 17/14 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 13/6 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 13/4 fráköst, Adomas Drungilas 8/11 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 7, Tómas Valur Þrastarson 5, Davíð Arnar Ágústsson 5, Ingimundur Orri Jóhannsson 4, Ísak Júlíus Perdue 2, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 2, Emil Karel Einarsson 2/8 fráköst.

Fyrri greinDagný til liðs við West Ham
Næsta greinHarkaleg bílvelta á Eyrarbakkavegi