Þórsarar Vinnie Hafnarfirði!

Vincent Shahid leitar leiða upp að körfu Hauka í fjórða leik liðanna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann frábæran sigur á Haukum í oddaleik í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í Hafnarfirði í kvöld. Vinnie Shahid tók leikinn yfir í lokin og skoraði 12 af síðustu 15 stigum liðsins sem tryggði Þór 93-95 sigur.

Þórsarar unnu því einvígið 3-2 og mæta Íslandsmeisturum Vals í undanúrslitum. Fyrsti leikur liðanna verður á Hlíðarenda næstkomandi föstudagskvöld.

Græni drekinn vaknaður
Leikurinn í kvöld var sveiflukenndur og æsispennandi. Þórsarar fengu frábæran stuðning úr stúkunni en það kom þeim þó ekki almennilega af stað í upphafi leiks því Haukar byrjuðu mun betur og komust í 23-11. Þór lokaði leikhlutanum hins vegar vel og náði svo að minnka muninn í eitt stig í 2. stig leikhluta og staðan var 44-41 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var í járnum, Haukar voru lengst af með frumkvæðið en munurinn var aldrei meiri en fimm stig. Forskot heimamanna jókst örlítið í 4. leikhluta og þegar fjórar mínútur voru eftir rann upp fyrir Þórsurum að þeir væru mögulega á leið í sumarfrí. Þeir grænu höfðu hins vegar engan áhuga á því og plönuðu í skyndi ferð í undanúrslitin undir fararstjórn Vinnie Shahid. Hann var frábær á lokakaflanum og brúaði bilið og rúmlega það á rúmum tveimur mínútum. Haukar reyndu erfið skot en enn ekkert gekk og Þórsarar fögnuðu rosalegum sigri.

Tómas með flottar tölur
Vinnie Shahid var stigahæstur Þórsara með 35 stig og 8 stoðsendingar en Þórsarar fengu fínt framlag úr mörgum áttum, meðal annars frá Tómasi Val Þrastarsyni sem steig upp annan leikinn í röð, skoraði 15 stig og tók 6 fráköst.

Haukar-Þór Þ. 93-95 (23-19, 21-22, 29-30, 20-24)
Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 35/8 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 15/6 fráköst/3 varin skot, Pablo Hernandez 14/6 fráköst, Jordan Semple 12/6 fráköst, Fotios Lampropoulos 10/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 9.

Fyrri greinÓðinn varði Íslandsmeistaratitilinn
Næsta greinAð búa í dreifbýli eru forréttindi