Þórsarar töpuðu toppslagnum

Styrmir Snær Þrastarson var stigahæstur Þórsara með 15 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn beið lægri hlut þegar topplið Keflavíkur kom í heimsókn í Þorlákshöfn í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Þór leiddi í leikhléi, 41-40. Þórsarar héldu forystunni fram í seinni hálfleikinn en undir lok 3. leikhluta skoraði Keflavík fjórtán stig í röð án þess að Þór næði að svara fyrir sig, og breyttu gestirnir stöðunni þar í 63-71.

Fjórði leikhlutinn var mjög kaflaskiptur, Þór komst aftur yfir 77-74, en á síðustu fjórum mínútunum reyndust gestirnir sterkari og sigruðu Keflvíkingar að lokum, 88-94.

Styrmir Snær Þrastarson var stigahæstur Þórsara með 15 stig, Davíð Arnar Ágústsson skoraði 14 stig á 17 mínútum og Adomas Drungilas skoraði sömuleiðis 14 stig. Larry Thomas skoraði 13 stig og sendi 7 stoðsendingar.

Keflavík jók þar með forskotið á Þór í fjögur stig. Keflavík hefur 22 stig í toppsætinu en Þór er í 2. sæti með 18 stig og gæti misst Stjörnuna uppfyrir sig síðar í kvöld.

Fyrri greinLangþráður sigur Selfyssinga
Næsta greinKjartan gerður að heiðursfélaga GLÍ