Þórsarar töpuðu þegar Styrmir sneri heim

Styrmir Snær Þrastarson er mættur aftur í Höfnina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn heimsótti Hauka í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Þórsarar töpuðu 90-84 en stóru fréttir kvöldsins voru þær að Styrmir Snær Þrastarson mætti aftur til leiks með uppeldisfélagi sínu eftir háskóladvöl í Bandaríkjunum.

Þórsarar voru skrefinu á eftir í allt kvöld, Haukar leiddu 55-45 í hálfleik, en eftir góðan sprett í 3. leikhluta náðu Þórsarar að minnka muninn niður í tvö stig. Haukar hertu þá tökin aftur og lönduðu að lokum dýrmætum sigri.

Alonzo Walker var bestur í liði Þórs í kvöld, skoraði 18 stig og tók 11 fráköst. Innkoma Styrmis verður eflaust jákvæð fyrir Þórsara upp á framhaldið í vetur, en hann hafði sig hægan í kvöld með 6 stig og 8 fráköst.

Eftir tvær umferðir sitja Þórsarar stigalausir á botni deildarinnar. Næsti leikur Þórs er gegn Hetti á heimavelli.

Tölfræði Þórs: Alonzo Walker 18/11 fráköst, Pablo Hernandez 13/7 fráköst, Fotios Lampropoulos 12, Adam Rönnqvist 12/5 stoðsendingar, Josep Pérez 10/6 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 6/8 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 5, Davíð Arnar Ágústsson 4/4 fráköst, Daníel Ágúst Halldórsson 4.

Fyrri greinTaumur fékk styrk til plöntukaupa
Næsta greinSunnlensku liðin sigruðu öll