Þórsarar tóku nafna sína í kennslustund

Ronaldas Rutkauskas skoraði 8 stig og tók 21 frákast. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur á Þór Akureyri í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Þorlákshöfn urðu 110-81. Þetta var sjötti sigur Þórsara í röð.

Fyrri hálfleikurinn var jafn, gestirnir byrjuðu betur en Íslandsmeistararnir náðu sér á strik fyrir leikhlé og leiddu 53-50 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum var snemma ljóst í hvað stefndi. Þór Þ sýndi sparihliðarnar í vörn og sókn og spiluðu frábæran körfubolta í 3. leikhluta og munurinn jókst enn frekar í þeim fjórða.

Glynn Watson var stigahæstur Þórsara með 24 stig og 12 stoðsendingar, Daniel Mortensen skoraði 21 stig og Davíð Arnar Ágústsson 16. Framlagshæstur Þórsara var hins vegar Ronaldas Rutkauskas sem skoraði 8 stig og tók hvorki meira né minna en 21 frákast.

Íslandsmeistarar Þórs eru í toppsæti deildarinnar með 12 stig eftir sjö umferðir.

Fyrri greinSmitum fjölgar á Suðurlandi
Næsta greinHrunamenn hressir í leikslok