Þórsarar taka forystuna

Darwin Davis skoraði 30 stig í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann frábæran sigur á Njarðvík í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í Njarðvík í kvöld, 107-110 eftir framlengdan leik. Þórsarar taka þar með forystuna í einvíginu, 2-1, og þurfa einn sigur til viðbótar til þess að komast í undanúrslitin.

Þórsarar byrjuðu betur í leiknum og leiddu 22-31 eftir 1. leikhluta. Þá tóku Njarðvíkingar leikinn í sínar hendur en þeir skoruðu 38 stig í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 62-53.

Eftir þennan frábæra kafla Njarðvíkur var komið að Þór að svara fyrir sig. Þeir fóru á kostum í sókninni í upphafi seinni hálfleiks og jöfnuðu 69-69. Þegar síðasti fjórðungurinn hófst leiddi Þór 79-83 og þeir juku forskotið enn frekar í upphafi þess fjórða.

Spennan í fjórða leikhluta var á öðru plani, leikurinn algjörlega í járnum, Þórsarar skrefinu á undan en á lokasekúndunni jafnaði Njarðvík 100-100 og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni skoraði Njarðvík fyrstu tvö stigin en á eftir fylgdu fjögur stig í röð frá Þór sem hleypti heimamönnum ekki fram úr sér eftir það. Hrikaleg spenna og heimavallarrétturinn kominn í hamingjuna. Liðin mætast næst í Þorlákshöfn á mánudagskvöld.

Darwin Davis var stigahæstur Þórsara í leiknum með 30 stig og 8 stoðsendingar. Tómas Valur Þrastarson skoraði 25 stig og tók 7 fráköst, Jordan Semple skoraði 21 stig, Nigel Pruitt 16 og Fotios Lampropoulos 12 en Grikkinn knái skoraði helming stiga sinna í framlengingunni.

Fyrri greinSnúa bökum saman í baráttu gegn ofbeldi og afbrotum
Næsta greinErna Hrönn í ´80s-dressi tengdamömmu