Þórsarar steinlágu í Njarðvík

Jordan Semple (t.v.) skoraði 18 stig og tók 18 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tapaði stórt gegn Njarðvík í toppbaráttu úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld en liðin mættust í Njarðvík. Lokatölur urðu 103-76.

Framlag liðanna var, eins og tölurnar benda til, mjög ólíkt í kvöld. Njarðvíkingar sýndu sparihliðarnar á meðan ekkert gekk upp hjá Þórsurum. Njarðvík náði strax góðu forskoti og staðan í hálfleik var 53-33.

Njarðvíkingar gengu endanlega frá leiknum í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða var staðan orðin 86-53. Bilið var orðið of breitt og Þórsarar náðu aldrei neinu flugi.

Jordan Semple og Darwin Davis skoruðu báðir 16 stig fyrir Þórsara og Semple tók 16 fráköst að auki. Fotios Lampropoulos skoraði 15 stig en aðrir leikmenn Þórsliðsins létu mun minna að sér kveða.

Eftir sigurinn í kvöld eru Njarðvíkingar einir á toppi deildarinnar með 12 stig en Þórsarar eru í hópi fimm annarra liða sem fylgja þeim á eftir með 10 stig.

Fyrri greinBrúin verður byggð í Árborg
Næsta greinSætur sigur á heimavelli