Þórsarar skelltu meisturunum – Hamar tapaði

Emil Karel Einarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann sterkan sigur á Íslandsmeisturum Tindastóls í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma tapaði Hamar gegn Njarðvík.

Þórsarar voru í góðum gír í upphafi leiks gegn Tindastóli í Þorlákshöfn. Þeir voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 52-34. Stólarnir svöruðu hressilega fyrir sig í 3. leikhluta og minnkuðu muninn í sex stig, 69-63. Þórsliðið lét þetta áhlaup ekki á sig fá og kláraði leikinn af krafti og vann sannfærandi sigur, 96-79.

Emil Karel Einarsson og Darwin Davis voru stigahæstir Þórsara með 18 stig, Jordan Semple skoraði 16 stig, tók 11 fráköst og sendi 7 stoðsendingar, Nigel Pruitt skoraði 14 stig og tók 8 fráköst og Tómas Valur Þrastarson skoraði 13 stig.

Hamar lenti í brekku
Á sama tíma tók Hamar á móti Njarðvík og þar lentu Hvergerðingar strax í brekku. Njarðvík leiddi 17-28 eftir 1. leikhluta en staðan í hálfleik var 39-49. Vörnin var götótt hjá Hamri í upphafi seinni hálfleik og Njarðvíkingar juku forskotið hratt. Í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 65-90 og Njarðvík vann að lokum örugglega, 85-109.

Jalen Moore var stigahæstur hjá Hamri með 30 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar, Danero Thomas skoraði 25 stig og Ragnar Nathanaelsson skoraði 20 stig og tók 13 fráköst. Þremenningarnir skoruðu 88% af stigum Hamarsliðsins í kvöld.

Staðan í deildinni er þannig að Þórsarar eru í 3. sæti með 12 stig en Hamar er áfram á botninum án stiga.

Fyrri greinEmilía Hugrún og Tómas Jónsson flytja jólalög
Næsta greinSelfoss missti af dýrmætum stigum