Þórsarar sigruðu á Icelandic Glacial mótinu

Sigurlið Þórs á Icelandic Glacial mótinu. Ljósmynd/Hafnarfréttir

Þór Þorlákshöfn sigraði á Icelandic Glacial mótinu, árlegu æfingamóti í körfubolta sem lauk í vikunni.

Hafnarfréttir greina frá þessu.

Þór lagði Njarðvík 114-96 síðastliðið fimmtudagskvöld. Gestirnir í Njarðvík mættu sterkir til leiks og leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta. Þórsarar komu gífurlega einbeittir til leiks í öðrum leikhluta og sneru leiknum sér í vil en staðan var 64-50 í hálfleik.

Þórsarar héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og gáfu Njarðvíkingum engin færi á að komast aftur inn í leikinn og endaði leikurinn með átján stiga sigri Þórsara sem líta mjög vel út þegar örstutt er í fyrsta leik Dominos deildarinnar.

Larry Thomas og Adomas Drungilas voru frábærir í leiknum en Larry skoraði 27 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Adomas bætti við 26 stigum, tók 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Ragnar Örn Bragason skoraði 18 stig, Styrmir Snær Þrastarson 14, Halldór Garðar Hermannsson 12 og Callum Lawson 11.

Fyrri greinTíu Ægismenn töpuðu stórt
Næsta greinFimmta tapið á heimavelli í sumar