Þórsarar sannfærandi eftir COVID-hlé

Þórsarar lögðu sig alla fram í kvöld. Hér stöðva Davíð Arnar Ágústsson og Larry Thomas KR-inginn Matthías Orra Sigurðsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór vann öruggan sigur á KR í kvöld á heimavelli í Þorlákshöfn þegar keppni hófst aftur í úrvalsdeild karla í körfubolta.

COVID-hléið virðist ekki hafa farið mjög illa í Þórsara því þeir voru mikið betri aðilinn stærstan hluta leiksins. Leikurinn fór rólega af stað en Þórsarar leiddu eftir 1. leikhluta, 26-18. KR komst yfir í eina skiptið í leiknum í upphafi 2. leikhluta, 30-31, en Þórsarar létu það ekki á sig fá og bættu í fyrir leikhlé. Staðan var 47-37 í hálfleik.

Heimamenn voru öryggið uppmálað í seinni hálfleiknum og þeir voru komnir með 21 stigs forystu, 71-50, í upphafi 4. leikhluta. Þá loksins kviknaði einhver neisti hjá KR-ingum sem fóru að spila af meiri ákefð og náðu með því að minnka muninn í 7 stig, 79-71, þegar tæpar tvær og hálf mínútur voru eftir af leiknum. Þórsarar tóku leikhlé og létu ekki draga sig út í neina vitleysu eftir það, heldur kláruðu leikinn af öryggi.

Adomas Drungilas, framlagshæsti leikmaður Þórs í vetur, var í leikbanni í kvöld en það kom ekki að sök. Halldór Garðar Hermannsson var stigahæstur Þórsara í kvöld með 21 stig og 7 stoðsendingar. Callum Lawson átti sömuleiðis frábæran leik, skoraði 18 stig og tók 19 fráköst og Larry Thomas skoraði einnig 18 stig.

Þórsarar eru áfram í 2. sæti deildarinnar með 24 stig, en Keflavík er á toppnum með 28 og leik til góða. KR er í 4. sæti með 20 stig.

Tölfræði Þórs: Halldór Garðar Hermannsson 21/7 stoðsendingar, Callum Lawson 18/19 fráköst, Larry Thomas 18/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 12/8 fráköst, Emil Karel Einarsson 9, Davíð Arnar Ágústsson 4/5 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 2/5 fráköst.

Fyrri greinSmit hjá nemanda í Vallaskóla
Næsta greinGlæðum landsbyggðina nýju lífi