Þórsarar misstu af mikilvægum stigum

Daniel Mortensen skoraði 24 stig og tók 8 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs urðu af mikilvægum stigum í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld þegar Baldur Þór Ragnarsson mætti með lærisveina sína í Tindastóli til Þorlákshafnar.

Þegar leið á 1. leikhlutann tóku Stólarnir frumkvæðið í leiknum og voru skrefinu á undan alveg fram að hálfleik. Þór beit frá sér í 2. leikhluta en gestirnir voru samt sem áður yfir í hálfleik, 42-43.

Leikurinn var í járnum í 3. leikhluta og liðin skiptust á um að hafa forystuna en í þeim fjórða fóru Stólarnir að herða tökin aftur. Þeir höfðu forystuna síðustu tíu mínúturnar en Þór náði að minnka muninn í fjögur stig þegar rúm mínúta var eftir. Nær komust þeir grænu ekki og Tindastóll sigraði 85-91.

Þórsarar misstu þar með toppsætið í deildinni, fyrir lokaumferðina sem fer fram á fimmtudagskvöld. Ætli Þórsarar að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í fyrsta skipti þá þurfa þeir að vinna Grindavík í lokaumferðinni og treysta á að Njarðvík tapi gegn Keflavík á sama tíma.

Daniel Morthensen var atkvæðamestur Þórsara í kvöld með 24 stig og 8 fráköst.

Tölfræði Þórs: Daniel Mortensen 24/8 fráköst, Kyle Johnson 22/6 fráköst, Luciano Massarelli 15/5 stoðsendingar, Ronaldas Rutkauskas 12/10 fráköst/6 stoðsendingar, Glynn Watson 5/7 fráköst/7 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 5, Emil Karel Einarsson 2.

Fyrri greinHamar-Þór með bakið upp við vegg
Næsta greinNokkrum tonnum of þungur