Þór og Hamar töpuðu leikjum sínum í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld en bæði lið áttu heimaleik.
Þórsarar voru lengi að finna taktinn gegn Hetti þegar liðin mættust í Þorlákshöfn. Höttur leiddi 23-33 að loknum 1. leikhluta og staðan var 45-57 í hálfleik. Þór vaknaði til lífsins í 3. leikhluta og minnkaði muninn í 64-66 og spenna hljóp í leikinn í blálokin þar sem Þórsarar önduðu hressilega niður um hálsmálið hjá Hattarmönnum. Gestirnir héldu sjó og sigruðu að lokum 89-92.
Nigel Pruitt var stighæstur hjá Þór með 21 stig og 8 fráköst, Jordan Semple skoraði 16 stig og tók 16 fráköst, Darwin Davis skoraði 15 stig og Tómas Valur Þrastarson 13, auk þess sem hann tók 7 fráköst og sendi 6 stoðsendingar.
Það var sömuleiðis spenna í Hveragerði og Hamarsmenn voru grátlega nálægt sínum fyrsta sigri í vetur þegar Haukar komu í heimsókn í Frystikistuna. Leikurinn var jafn allan tímann en Hamar leiddi í leikhléi, 48-44. Úrslitin réðust á lokamínútunni, staðan var 85-85 þegar hún rann upp en Haukar hittu betur þegar mest á reyndi og sigruðu 87-88.
Franck Kamgain var stigahæstur Hamarsmanna með 33 stig, Dragos Diculescu skoraði 18, Ragnar Nathanaelsson skoraði 13 stig og tók 14 fráköst, Aurimas Urbonas skoraði 12 stig, tók 12 fráköst og sendi 9 stoðsendingar og Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 11 stig.
Staðan í deildinni er þannig að Þór er í 3. sæti með 20 stig en Hamar er enn á botninum án stiga.