Þórsarar með bakið upp við vegg

Halldór Garðar Hermannsson var stigahæstur Þórsara með 17 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tapaði öðrum leiknum gegn Tindastóli í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld, 73-87, í Þorlákshöfn og er nú 2-0 undir í einvíginu.

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í fjögurra liða úrslit þannig að Þórsarar eru komnir með bakið upp við vegg og verða að knýja fram sigur í næsta leik, sem verður á Sauðárkróki á fimmtudagskvöld.

Það var á brattann að sækja fyrir Þórsara allan tímann í kvöld. Þeir byrjuðu illa og Tindastóll leiddi 13-28 eftir fyrsta leikhluta. Staðan var 32-43 í leikhléi.

Þór náði að minnka muninn í þrjú stig í 3. leikhluta, 53-56, en Tindastóll byrjaði 4. leikhlutann af krafti og gerði 18-5 áhlaup og breytti stöðunni í 61-77 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þeir grænu áttu engin svör við þessu og Tindastóll vann sanngjarnan sigur.

Kinu Rochford var öflugur í liði Þórs í kvöld með 16 stig og 11 fráköst en Halldór Garðar Hermannsson var stigahæstur heimamanna með 20 stig.

Tölfræði Þórs: Halldór Garðar Hermannsson 20, Kinu Rochford 16/11 fráköst, Nikolas Tomsick 14/4 fráköst/7 stoðsendingar, Jaka Brodnik 11/8 fráköst, Ragnar Örn Bragason 5, Emil Karel Einarsson 4/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3. 

Fyrri greinKrefst þess að áform um skerðingu til Jöfnunarsjóðs verði afturkölluð
Næsta greinHermann ráðinn yfirmaður sjúkraflutninga