Þórsarar mættu tilbúnir

Ragnar Örn Bragason var maður leiksins í kvöld. Myndin er tekin áður en hann aflitaði á sér hárið - en tengist vissulega efni fréttarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar fóru á kostum í fyrsta leik einvígisins gegn Keflavík í úrslitarimmu Íslandsmóts karla í körfubolta. Þór sigraði 73-91 á útivelli í kvöld og leiðir 1-0 í einvíginu.

Þorlákshafnarliðið stýrði umferðinni framan af leiknum og staðan í hálfleik var 30-45. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en örlítil spenna hljóp í leikinn í 4. leikhluta þar sem Keflavík tókst að minnka muninn í þrettán stig. Sá vonarneisti slökknaði þó fljótlega því Þórsarar héldu haus á lokakaflanum og létu ekki slá sig út af laginu.

Maður leiksins var Ragnar Örn Bragason, hann var stigahæstur Þórsara með 22 stig og 78% skotnýtingu. Annars skilaði allt byrjunarlið Þórs góðu framlagi í kvöld og menn eins og Davíð Arnar Ágústsson komu ferskir af bekknum. Græni drekinn átti líka hlut að máli því hann var á flugi í stúkunni allan tímann.

Næsti leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á laugardagskvöld kl. 20:15.

Tölfræði Þórs: Ragnar Örn Bragason 22, Larry Thomas 16/7 fráköst/9 stoðsendingar, Adomas Drungilas 15/7 fráköst/6 stoðsendingar, Callum Lawson 14/6 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 12/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 7, Halldór Garðar Hermannsson 5/4 fráköst.

Fyrri greinMjög léleg mæting í bólusetningar
Næsta greinÆgismenn settust á Stólana