Þórsarar létu toppliðið svitna

Nikolas Tomsick skoraði 39 stig fyrir Þór. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þór Þorlákshöfn tapaði 82-76 í hörkuleik gegn Njarðvík á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann.
Njarðvík hafði frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum 23-20, en staðan var 43-38 í leikhléi. Þórsarar skelltu í lás í vörninni í 3. leikhluta og breyttu stöðunni í 52-59 í 3. leikhluta og héldu svo forystunni allt framyfir miðjan 4. leikhluta. Þá fóru sóknir Þórs að klikka og Njarðvík komst aftur yfir, 74-72, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Heimamenn bættu um betur á lokamínútunum og Þórsarar náðu ekki að svara. Að lokum skildu sex stig liðin að.
Kinu Rochford var sterkur í liði Þórs með 20 stig og 8 fráköst og Nikolas Tomsick skoraði sömuleiðis 20 stig.

Njarðvík tyllti sér í toppsæti deildarinnar með sigrinum, hefur 24 stig, en Þór er í 7. sæti með 12 stig.

Tölfræði Þórs: Kinu Rochford 20/8 fráköst, Nikolas Tomsick 20/6 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 14/4 fráköst, Jaka Brodnik 11, Davíð Arnar Ágústsson 10/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 1.
Fyrri greinEyrún og ML-kórinn fengu Menntaverðlaun Suðurlands 
Næsta grein„Ég held að dæmin sanni hversu gott slökkvilið þetta er“