Þórsarar komnir í undanúrslitin

Daniel Mortensen skoraði 19 stig fyrir Þór. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs frá Þorlákshöfn eru komnir í undanúrslit bikarkeppni karla í körfubolta eftir nauman sigur á ÍR í háspennuleik á útivelli í kvöld.

ÍR byrjaði betur í leiknum og hafði frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn. Staðan í leikhléi var 46-38.

Þórsarar skiptu um gír í 3. leikhluta og jöfnuðu 58-58 þegar tæp mínúta var eftir af 3. leikhluta. ÍR var þó áfram skrefinu á undan og það var ekki fyrr en tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum að Þórsarar komust yfir. Við tóku æsispennandi lokasekúndur þar sem Þórsarar voru í essinu sínu og þeir skoruðu síðustu þrjú stig leiksins til þess að tryggja sér 77-79 sigur.

Daniel Mortensen og Luciano Massarelli voru stigahæstir Þórsara með 19 stig en maður leiksins var Glynn Watson sem skoraði 12 stig, tók 14 fráköst og sendi 8 stoðsendingar.

Undanúrslit bikarkeppninnar verða leikin á 11. og 12. janúar og úrslitaleikurinn er laugardaginn 15. janúar í Smáranum í Kópavogi.

Stjarnan er einnig komin í undanúrslitin en það ræðst á morgun hvaða lið bætast í hópinn eftir leiki Vals og Njarðvíkur annars vegar og Keflavíkur og Hauka hins vegar.

Tölfræði Þórs: Luciano Massarelli 19, Daniel Mortensen 19/5 fráköst, Ronaldas Rutkauskas 12/7 fráköst, Glynn Watson 12/14 fráköst/8 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 9, Davíð Arnar Ágústsson 8.

Fyrri greinHamar-Þór úr leik í bikarnum
Næsta greinSautján í einangrun í Þorlákshöfn