Þórsarar komnir á blað

Þórsarar þurfa að standa þétt saman og snúa bökum saman. Ljósmynd/Þór Þ

Þór Þorlákshöfn vann sinn fyrsta sigur í úrvalsdeild karla í körfubolta í vetur þegar liðið tók á móti ÍR í Þorlákshöfn í kvöld. Eftir spennandi lokakafla fögnuðu Þórsarar 100-98 sigri.

Þórsarar byrjuðu betur og leiddu 23-18 að loknum 1. leikhluta. Annar leikhluti var hnífjafn og liðin skiptust á um að hafa forystuna en Þór hitti vel af vítalínunni á lokakaflanum og leiddi 52-49 í hálfleik.

Þeir grænu héldu forskotinu nær allan 3. leikhluta en undir lok hans jafnaði ÍR 72-72. Fjórði leikhluti var æsispennandi en Þórsarar voru komnir með sex stiga forskot þegar 51 sekúnda var eftir og þeim brást ekki bogalistin á vítalínunni á lokasekúndunum.

Jakoby Ross var stigahæstur Þórsara með 38 stig og Rafail Lanaras skoraði 29 stig.

Þórsarar eru í 11. sæti deildarinnar með 2 stig en ÍR er í 7. sæti með 6 stig.

Þór Þ.-ÍR 100-98 (23-18, 29-31, 22-23, 26-26)
Tölfræði Þórs Þ.: Jacoby Ross 38/6 fráköst/6 stoðsendingar, Rafail Lanaras 29, Lazar Lugic 15/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 9/4 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 6/5 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 3.

Fyrri greinSelfoss sótti að Hetti í lokin
Næsta greinHamarskarlar hraðmótsmeistarar fimmta árið í röð