Þórsarar keyrðu yfir Blika

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann óvæntan stórsigur á Breiðabliki í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Þrátt fyrir sigurinn er Þór áfram í fallsæti.

Ölfusingar buðu upp á sóknarleik af bestu gerð í kvöld og byrjuðu leikinn af miklum krafti, staðan í hálfleik var 48-67. Í upphafi seinni hálfleiks fóru Þórsarar hamförum í sókninni og skoruðu 44 stig í 3. leikhluta. Staðan að honum loknum var 76-111 og úrslitin ráðin. Blikar svöruðu hressilega fyrir sig í síðasta fjórðungnum en það kom ekki í veg fyrir stórsigur Þórs, 113-137.

Styrmir Snær Þrastarson var með rosalegar tölur fyrir Þórsara, 21 stig, 13 fráköst og 14 stoðsendingar. Fotios Lampropoulos fór á kostum með 34 stig og 11 fráköst og Vincent Shahid var einu frákasti frá þrefaldri tvennu, með 22 stig, 10 stoðsendingar og 9 fráköst.

Þrátt fyrir sigurinn er Þór áfram í 11. sæti, nú með 6 stig, jafnmörg og ÍR í 10. sætinu.

Breiðablik-Þór Þ. 113-137 (24-36, 24-31, 28-44, 37-26)
Tölfræði Þórs: Fotios Lampropoulos 34/11 fráköst, Vincent Shahid 33/9 fráköst/10 stoðsendingar, Pablo Hernandez 24/7 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 21/4 fráköst/6 stolnir, Styrmir Snær Þrastarson 21/13 fráköst/14 stoðsendingar, Tristan Rafn Ottósson 2, Emil Karel Einarsson 2.

Fyrri greinSveinarnir brugðu blysum á loft
Næsta greinHamar í góðum málum – Selfoss og Hrunamenn töpuðu