Þórsarar fóru örugglega áfram

Trevon Evans og Ronaldas Rutkauskas í baráttu um frákast í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs frá Þorlákshöfn unnu öruggan sigur á nágrönnum sínum í 1. deildarliði Selfoss þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta í Gjánni á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar voru lítil fyrirstaða fyrir Þórsara sem leiddu 40-63 í hálfleik og eftir 3. leikhluta var staðan orðin 67-99. Yngri leikmenn fengu að spreyta sig í 4. leikhlutanum, sem helst verður minnst fyrir vasklega framgöngu hins 14 ára gamla Birkis Hrafns Eyþórssonar sem skoraði tíu stig og tók fjögur fráköst á þeim tæpu fimm mínútum sem hann fékk að spila í sínum fyrsta meistaraflokksleik.

Annars var Gasper Rojko stigahæstur Selfyssinga með 20 stig og 10 fráköst en hjá Þórsurum fór Daninn Daniel Mortensen mikinn með 25 stig og Glynn Watson skoraði 17 stig auk þess að senda 10 stoðsendingar.

Á morgun verður dregið í 8-liða úrslitin og mögulegir mótherjar Þórs Þ eru Grindavík, Keflavík, Njarðvík, Stjarnan, Valur, ÍR og 1. deildarlið Hauka. Einnig verður dregið í 8-liða úrslit kvenna á morgun og þar er Hamar-Þór í pottinum ásamt Breiðabliki, Fjölni, Haukum, ÍR, Njarðvík, Snæfelli og Stjörnunni.

Tölfræði Selfoss: Gasper Rojko 20/10 fráköst, Trevon Evans 19/8 stoðsendingar, Þorgrímur Starri Halldórsson 10/7 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 10/4 fráköst, Styrmir Jónasson 8, Arnar Geir Líndal 6, Óli Gunnar Gestsson 6/4 fráköst, Sigmar Jóhann Bjarnason 5/4 fráköst, Vito Smojer 2.

Tölfræði Þórs: Daniel Mortensen 25, Glynn Watson 17/6 fráköst/10 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 17/5 fráköst, Luciano Nicolas Massarelli 12/7 stoðsendingar, Ísak Júlíus Perdue 12, Ronaldas Rutkauskas 8/9 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 7, Ragnar Örn Bragason 6, Emil Karel Einarsson 5, Sæmundur Þór Guðveigsson 2.

Fyrri greinSlasaðist þegar buggybíll valt
Næsta greinVel heppnað Þollóween – sjáðu myndirnar