Þórsarar eru vaknaðir

Jordan Semple. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir skelfilega byrjun í úrvalsdeild karla í körfubolta í vetur eru Þorlákshafnar-Þórsarar svo sannarlega vaknaðir til lífsins. Þór skellti Keflavík örugglega á útivelli í kvöld og vann sinn fjórða sigur í röð í deildinni. Lokatölur urðu 83-104.

Þórsarar sýndu strax að þeir voru í vígahug, skoruðu fyrstu fimm stig leiksins og leiddu 21-30 eftir 1. leikhluta. Forskot Þórsara varð mest fjórtán stig í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 44-55. Þórsurum héldu engin bönd í seinni hálfleik og allar tilraunir Keflavíkur til þess að komast inn í leikinn voru kveðnar samstundis í kútinn.

Jordan Semple var frábær fyrir Þórsara í kvöld, skoraði 23 stig, tók 7 fráköst, varði 4 skot og sendi 5 stoðsendingar. Vincent Shahid var sömuleiðis öflugur með 23 stig, 10 stoðsendingar og 5 fráköst.

Með sigrinum í kvöld lyfta Þórsarar sér upp í 7. sæti deildarinnar með 14 stig en Keflavík er í 3. sæti með 24 stig. Þórsarar geta þó ekki slakað neitt á því þeirra bíður gríðarlega mikilvægur leikur í næstu umferð, gegn ÍR í Þorlákshöfn þann 5. mars.

Keflavík-Þór Þ. 83-104 (21-30, 23-25, 25-23, 14-26)
Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 23/5 fráköst/10 stoðsendingar, Jordan Semple 23/7 fráköst/5 stoðsendingar/4 varin skot, Pablo Hernandez 21/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 10/4 fráköst, Fotios Lampropoulos 8/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 6, Styrmir Snær Þrastarson 6/4 fráköst/10 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 5/4 fráköst, Tristan Rafn Ottósson 2.

Fyrri greinFyrsti sigur Selfoss í Lengjunni
Næsta greinÆgir og Hamar upp um deild