Þórsarar einir á botninum

Styrmir Snær Þrastarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var sannkallaður spennutryllir í boði í Þorlákshöfn í kvöld þegar Þór tók á móti KR í úrvalsdeild karla í körfubolta. Fyrir leikinn voru liðin þau einu sem voru án stiga í deildinni.

Þórsarar fóru alla leið í Þollóween þemanu í 1. leikhluta og voru hreint út sagt hræðilegir. KR skoraði 39 stig í fyrsta fjórðungnum og varnarleikur Þórsara var eins og klipptur úr úr hryllingsmynd.

Vörnin small hins vegar hjá Þórsurum í 2. leikhluta og með frábæru liðsframlagi náðu þeir að minnka muninn úr 22-39 í 43-47 en KR leiddi 47-54 í leikhléi.

KR hafði frumkvæðið framan af seinni hálfleik en Þórsarar voru aldrei mjög langt undan. Munurinn var þó orðinn 15 stig í upphafi 4. leikhluta, 78-93, en þá var Þórsurum nóg boðið og Davíð Arnar Ágústsson jafnaði 106-106 þegar tvær sekúndur voru eftir.

Framlengingin var æsispennandi liðin skiptust á um að hafa forystuna en á lokamínútunni voru KR-ingar komnir með 5 stiga forskot og Þórsurum tókst ekki að brúa bilið. KR kláraði leikinn á vítalínunni en þriggja stiga skot Adams Rönnqvist á lokasekúndunni geigaði og KR sigraði 118-121.

KR-ingar skildu þar með Þórsara eina eftir á botninum, án stiga eftir fjórar umferðir.

Pablo Hernandez var stigahæstur Þórsara með 29 stig og 9 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson var magnaður með 26 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos skoraði 20 stig og tók 7 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson skoraði 13 stig og Tómas Valur Þrastarson 12.

Fyrri greinBiskupinn heimsækir Skálholtsprestakall
Næsta greinÖruggt hjá Hamri á heimavelli