Þórsarar á toppnum eftir góðan sigur

Jordan Semple. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn er í toppsæti úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir góðan sigur á Álftanesi í kvöld. Á sama tíma tók Hamar á móti Hetti frá Egilsstöðum.

Þór Þorlákshöfn tók á móti nýliðum Álftaness í stórskemmtilegum leik, sem var jafn og spennandi en Þór hafði frumkvæðið lengst af. Þórsarar leiddu 24-17 eftir 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 47-40. Bæði lið sýndu frábær tilþrif í seinni hálfleiknum og mikil spenna var undir lokin. Álftanes jafnaði 66-66 í 4. leikhluta og náði mest 6 stiga forskoti í kjölfarið. Þórsarar svöruðu með 11 stigum í röð og tryggðu sér að lokum 84-79 sigur.

Jordan Semple var stigahæstur Þórsara með 25 stig og 14 fráköst auk 6 stoðsendinga. Nigel Pruitt skoraði 21 stig og tók 5 fráköst, Darwin Davis skoraði 16 stig og sendi 6 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson skoraði 12 stig og tók 5 fráköst og Davíð Arnar Ágústsson skoraði 10 stig. Athygli vakti að Þórsarar fengu 0 stig af bekknum í kvöld.

Höttur skrefinu á undan
Leikurinn Hamars og Hattar í Hveragerði var jafn framan af en í 2. leikhluta tóku Hattarmenn á sprett og leiddu 44-56 í hálfleik. Útlitið var ekki gott hjá Hamri en þeir náðu frábæru áhlaupi í 3. leikhluta og minnkuðu muninn í 60-66. Höttur steig þá aftur á bensíngjöfina og bjuggu sér til tíu stiga forskot sem þeir héldu nánast til enda. Hamar nálgaðist aftur á lokamínútunni en tíminn var á þrotum og lokatölur urðu 102-109.

Maurice Creek var stigahæstur Hamarsmanna með 31 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Franck Kamgain skoraði 20 stig, Danero Thomas 15 og 6 fráköst, Jose Medina skoraði 12 stig og sendi 12 stoðsendingar og Ragnar Nathanaelsson skoraði 11 stig og tók 10 fráköst.

Fyrri greinSlys í Reynisfjalli
Næsta greinFæ kláðaútbrot af dónalegu fólki