Þórsarar á toppinn eftir magnaðan sigur

Glynn Watson var í ham í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs tylltu sér á toppinn á úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld með mögnuðum sigri á Keflavík á útivelli, 80-89.

Þessi lið áttust við í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í sumar og var því mikill spenningur fyrir leiknum í kvöld. Liðin brugðust ekki skyldum sínum og buðu upp á stórskemmtilegan leik þar sem Íslandsmeistararnir voru betri.

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti, komust í 6-13 og leiddu 18-29 að loknum 1. leikhluta. Keflvíkingar klóruðu í bakkann í 2. leikhluta en staðan var 41-50 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var í járnum allan tímann, Þórsarar höfðu frumkvæðið en Keflvíkingar voru aldrei langt undan.

Í síðasta fjórðungnum dró hratt saman með liðunum og þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir jöfnuðu Keflvíkingar 78-78 og komust yfir í kjölfarið. Þórsarar voru hins vegar sterkari á lokamínútunum, skoruðu síðustu tíu stig leiksins á meðan Keflvíkingum tókst ekki að koma boltanum í körfuna síðustu þrjár mínúturnar.

Glynn Watson fór á kostum hjá Þór og skoraði 28 stig og Luciano Massarelli var sömuleiðis öflugur með 22 stig.

Þórsarar eru nú með 8 stig í efsta sæti deildarinnar en Keflavík er í 3. sæti, sömuleiðis með 8 stig.

Tölfræði Þórs: Glynn Watson 28/7 fráköst/6 stoðsendingar, Luciano Massarelli 22/6 fráköst/7 stoðsendingar, Daniel Mortensen 15/6 fráköst, Ronaldas Rutkauskas 13/9 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 5, Emil Karel Einarsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 3/4 fráköst.

Fyrri greinÁfram malbikað í Grímsnesinu á föstudag
Næsta greinEldur í ruslagámi í Hveragerði