Þórir tilnefndur sem kvennaþjálfari ársins

Þórir Hergeirsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson er einn fimm þjálfara sem Alþjóða handknattleikssambandið tilnefnir sem þjálfara ársins 2021 í kvennahandboltanum.

Þórir hefur verið aðalþjálfari norska kvennalandsliðsins frá árinu 2009 og safnað þrettán verðlaunum á stórmótum á þeim tíma. Árið 2021 varð norska liðið heimsmeistari og á Ólympíuleikunum í Tokyo vann liðið bronsverðlaunin.

Árið 2021 var stórbrotið hjá norska liðinu sem tapaði aðeins einum keppnisleik, undanúrslitaleik Ólympíuleikanna gegn liði rússnesku ólympíunefndarinnar. Liðið varð svo heimsmeistari í desember og tókst þá í fyrsta sinn að fara í gegnum mótið án þess að tapa leik. Í umsögn IHF um Þóri segir að hann sé einn mesti handboltahugsuður sem þjálfað hefur í kvennahandbolta og á árinu 2021 hafi hann fest arfleifð sína enn frekar í sessi.

Kosningin um þjálfara ársins fer fram á vef IHF og hefst hún þann 7. mars.

Fyrri greinHalldór gefur kost á sér hjá Framsókn
Næsta greinFyrstu stig Selfoss í Lengjunni