Þorbergur hljóp fram og til baka og sigraði

Fyrst í mark voru þau Þorbergur Ingi Jónsson og Anna Berglind Pálmadóttir. Ljósmynd/Laugavegshlaupið

Laugavegshlaupið fór fram í 23.sinn í dag. 513 hlauparar komu í mark í Þórsmörk og hafa aldrei jafn margir lokið hlaupinu. Fyrst í mark voru þau Þorbergur Ingi Jónsson og Anna Berglind Pálmadóttir.

Þorbergur Ingi sigraði í karlaflokki á 4:32:15 sem er 11. besti tími karla í hlaupinu frá upphafi. Þetta er í 5. sinn sem Þorbergur klárar Laugavegshlaupið en hann hljóp Laugaveginn reyndar tvisvar sinnum í dag. Lagði af stað í nótt úr Þórsmörk í Landmannalaugar og fór svo af stað með öðrum hlaupurum klukkan níu í morgun.

Í öðru sæti var Örvar Steingrímsson á 4:44:39 sem er um 2 mínútna bæting á hans besta tíma frá árinu 2014. Birgir Már Vigfússon var í 3.sæti á 4:55:55 og bætti tímann sinn frá 2016 um 25 mínútur.

Anna Berglind sigraði í kvennaflokki en hún hljóp á 5:24:00 sem er 6.besti tími kvenna í hlaupinu frá upphafi og 3.besti tími íslenskra kvenna. Besti tími Önnu Berglindar fyrir hlaupið í dag var 5:26:28 frá því í fyrra og hún því að bæta tímann sinn um tvær og hálfa mínútu. Í öðru sæti var Elísabet Margeirsdóttir á 5:56:16 en hún var að klára sitt 10. Laugavegshlaup í dag og hljóp Laugaveginn einnig tvisvar eins og Þorbergur. Í þriðja sæti var Silke Ursula Eiserbeck frá Þýskalandi á 5:59:37.

Aðstæður voru góðar á hlaupaleiðinni í dag, skýjað en sól öðru hvoru og frekar hægur vindur. Óvenjulega lítill snjór var í kringum Hrafntinnusker sem er hæsti punktur leiðarinnar.

Fyrri greinHrafnhildur Hanna til Frakklands
Næsta greinLeitað að fólki á Kili