Þór tapaði botnslagnum

Jacoby Ross var stigahæstur Þórsara með 26 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn steinlá í uppgjöri tveggja neðstu liðanna í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Þór heimsótti Ármann í Laugardalshöllina og þar unnu Ármenningar sinn fyrsta sigur í vetur, 110-85.

Fyrsti leikhluti var jafn en Ármenningar skoruðu síðustu níu stigin og leiddu 34-26 að honum loknum. Það gekk ekkert hjá Þórsurum í upphafi 2. leikhluta og Ármann náði 22 stiga forskoti. Staðan í hálfleik var 59-45.

Ármann hóf seinni hálfleikinn af krafti og náði 24 stiga forskoti en Þórsarar eygðu von á nýjan leik með því að skora níu stig í röð undir lok 3. leikhluta og staðan var 79-64 þegar sá fjórði hófst. Vonarneistinn slökknaði þó fljótlega í 4. leikhluta og Ármann vann öruggan sigur.

Jacoby Ross var stigahæstur Þórsara með 26 stig en Djordje Dzeletovic var framlagshæstur með 20 stig og 4 stoðsendingar.

Þórsarar eru áfram í 11. sæti deildarinnar með 4 stig og Ármann áfram í 12. sæti, nú með 2 stig.

Ármann-Þór Þ. 110-85 (34-26, 25-19, 20-19, 31-21)
Tölfræði Þórs Þ: Jacoby Ross 26, Djordje Dzeletovic 20/4 fráköst, Rafail Lanaras 20/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 9, Lazar Lugic 4/10 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 3, Arnór Daði Sigurbergsson 3.

Fyrri greinFjórir kórar á aðventutónleikum í Víkurkirkju
Næsta greinKatla jarðvangur hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu