Þór tapaði baráttunni um Suðurstrandarveginn

Callum Lawson var öflugur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar töpuðu baráttunni um Suðurstrandarveginn þegar liðið mætti Grindavík á útivelli í kvöld í úrvalsdeild karla í körfubolta. Leikurinn var hnífjafn og spennandi en Grindavík sigraði 105-101.

Það mátti vart á milli sjá allan leikinn og forskot liðanna varð aldrei meira en 8 stig, en Þórsarar skoruðu fyrstu 8 stig leiksins. Grindvíkingar voru fljótir að jafna sig og tóku svo frumkvæðið í 2. leikhluta en Þór skoraði síðustu fimm stigin í fyrri hálfleik og staðan var 59-57 í leikhléi.

Grindvíkingar voru skrefinu á undan allan seinni hálfleikinn en Þórsarar hleyptu þeim ekki langt frá sér. Þeim grænu tókst þó aldrei að brúa bilið fullkomlega í seinni hálfleik og í lokin voru Grindvíkingar heitir á vítalínunni og lokuðu leiknum þar á lokasekúndunum.

Callum Lawson var bestur í liði Þórs í kvöld með 23 stig og 9 fráköst og Styrmir Snær Þrastarson var sömuleiðis öflugur með 22 stig og 10 fráköst.

Þórsarar eru nú í 3. sæti deildarinnar eftir að hafa tapað tveimur leikjum í röð. Liðið hefur 18 stig en Grindavík er í 6. sæti með 14 stig.

Tölfræði Þórs: Callum Reese Lawson 23/9 fráköst/5 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 22/10 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 16/5 fráköst/7 stoðsendingar, Larry Thomas 16/6 fráköst/9 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 10, Ragnar Örn Bragason 8, Emil Karel Einarsson 6.

Fyrri greinIngi Rafn í Árborg
Næsta greinFjölgar um tvær íbúðir hjá Bjargi