Þór skellti toppliðinu

Davíð Arnar Ágústsson skoraði 10 stig í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann frábæran sigur á toppliði Tindastóls í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Liðin mættust í Þorlákshöfn þar sem heimamenn sigruðu 98-90.

Þór hafði frumkvæðið í 1. leikhluta og náði mest tíu stiga forskoti, 30-20. Tindastóll skoraði síðustu fimm stigin í 1. leikhluta og sneru svo hlutunum sér í vil í 2. leikhluta þar sem munurinn varð mestur sjö stig, 40-47. Emil Karel Einarsson lokaði hins vegar fyrri hálfleiknum fyrir Þór á mikilvægri þriggja stiga körfu og staðan var 49-51 í leikhléi.

Gestirnir héldu forystunni nánast allan 3. leikhlutann en Þór skoraði síðustu fimm stigin og staðan var 77-75 þegar 4. leikhluti hófst. Hann var jafn og hörkuspennandi en Þórsarar voru frábærir á lokakaflanum, gerðu 11-3 áhlaup, og tryggðu sér átta stiga sigur, 98-90.

Kinu Rochford átti frábæran leik fyrir Þór, skoraði 20 stig og tók 15 fráköst. Jaka Brodnik var hins vegar stigahæstur með 21 stig. Nikolas Tomsick skoraði 16 stig og tók 11 fráköst og Halldór Garðar Hermannsson skoraði sömuleiðis 16 stig. Davíð Arnar Ágústsson skoraði 10.

Þórsarar sitja nú í 6. sæti deildarinnar með 12 stig en Tindastóll er ennþá á toppnum með 20 stig.

Fyrri greinLiðsmenn Brunavarna Árnessýslu Sunnlendingar ársins 2018
Næsta grein„Mikilvægt að stoppa og kanna málin“