Þór skellti Þór óvænt

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Næstsíðustu umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta lauk í kvöld en þá tóku Þorlákshafnar-Þórsarar á móti Akureyrar-Þórsurum.

Það var boðið upp á jafnan og spennandi leik en liðin voru í miklu stuði í fyrri hálfleik og buðu upp á stórskotahríð. Heimamenn leiddu í hálfleik, 64-59.

Gestirnir reyndust svo sterkari í seinni hálfleik. Þeir skoruðu fyrstu sjö stigin og komust þannig strax yfir. Heimamenn bitu aðeins frá sér í 3. leikhluta en þeirra hlutskipti var að elta allan 4. leikhlutann og þrátt fyrir að komast nálægt tókst þeim ekki að brúa bilið. Akureyringar sigruðu að lokum, 99-104.

Larry Thomas var í miklum ham í kvöld, skoraði 30 stig og sendi 8 stoðsendingar en Styrmir Snær Þrastarson kom næstur honum með 18 stig.

Þór Þorlákshöfn er í 2. sæti deildarinnar með 28 stig en Akureyringar eru í 8. sæti með 18 stig. Síðasta umferðin fer fram á mánudaginn og þá leikur Þór gegn Njarðvík á útivelli.

Tölfræði Þórs: Larry Thomas 30/5 fráköst/8 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 18/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 15, Emil Karel Einarsson 12, Adomas Drungilas 11, Halldór Garðar Hermannsson 10/6 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 7, Callum Lawson 7 fráköst.

Fyrri greinBólusetningu 60 ára og eldri að ljúka
Næsta greinSelfoss tapaði á Hornafirði