Þór og Egill Íslandsmeistarar

Egill Blöndal sigraði í -90 kg flokki og þar varð Böðvar Arnarsson í 2. sæti. Ljósmynd/Aðsend

Þór Davíðsson og Egill Blöndal Ásbjörnsson, Umf. Selfoss, urðu Íslandsmeistarar í sínum þyngdarflokkum á Íslandsmótinu í júdó sem fram fór í Kópavogi um síðustu helgi.

Þór keppti til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í +100 kg flokki við Karl Stefánsson frá Akureyri sem er öflugur þungaviktari en Þór stóð að uppi sem sigurvegari eftir vel útfærða glímu. Egill Blöndal varði titil sinn frá 2020 í -90 kg flokki og sigraði sinn flokk með nokkrum yfirburðum.

Júdódeild Umf. Selfoss sendi sex keppendur á mótið og komust þeir allir á verðlaunapall, sem er glæsilegur árangur. Árangur var vonum framar miðað við aðstæður þar sem æfingar hafa verið meira og minna takmarkaðar undanfarið vegna COVID-19.

Í -90 kg flokknum vakti athygli að ungur maður, Eyrbekkingurinn Böðvar Arnarsson, náði 2. sæti, en hann er aðeins 16 ára gamall. Bróðir hans, Hrafn Arnarsson, barðist um Íslandsmeistaratitilinn í -100 kg flokki en varð að játa sig sigraðan í þetta sinn fyrir Matthíasi Stefánssyni, ÍR.

Breki Bernhardsson keppti í -81 kg flokki, sem var mjög sterkur þetta árið, en Breka tókst eigi að síður að ná 3. sætinu. Breki, sem er nýkrýndur íþróttamaður HSK 2020, er í góðu formi þessa dagana.

Í -73 kg flokknum var einnig mjög hörð keppni þetta árið og sterkir keppendur. Þar náði Selfyssingurinn Jakub Tomczyk 3. sæti og vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína í viðureign sinni við Zaza Simonishvili. Jakub er aðeins 16 ára gamall og að margra áliti einn efnilegasti júdómaður landsins.

Þór Davíðsson sigraði í +100 kg flokki. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinLeikfélag Sólheima sýnir á stóra sviði Þjóðleikhússins
Næsta greinÞór Þ tekur forystuna í einvíginu